top of page

Ásta Kristrún / Viðtal við Árna Matthíasson í MBL

Skömmu fyrir síðustu jól kom út bókin Það sem dvelur í þögninni þar sem Ásta Kristrún Ragnarsdóttir rekur lífshlaup formæðra sinna vítt um landið og út í heim. Í bókinni segir hún frá fjölda ættmenna sinna sem hún byggir á bernskuminningum og frásögnum foreldra sinna þeim Jónínu Vigdísi Schram og Ragnari Tómasi Árnasyni. Sögurnar ná rúm tvöhundruð ár aftur í tímann en stærsti kaflinn er um föðurforeldra höfundar, Kristrúnu Tómasdóttur og Árna Benediktsson.

 

— Ég ræddi við rithöfund í haust sem nefndi að eftir því sem við verðum eldri verður sterkari sú löngun að vita hvaðan við komum, hvað mótaði okkur og hvers vegna við erum eins og við erum. Varð slík löngun til þess að koma þér af stað í verkefninu?

 

„Það var hluti af því en ekki síður það að ég ólst upp við frekar óvenjuleg  skilyrði utan við borgina á hrossabúi, með sagnaglöðum foreldrum. Frásagnir þeirra sem þau voru óspör á lituði uppvöxt minn. Ég er þér sammála því sem þú segir á áhuginn á því liðna aukist með aldrinum. Ég finn það í kringum mig og hef heyrt þá frá mörgum sem lesið hafa bókina mína að hún virkar sem hvati í að leita uppruna. Það sem vakt fyrir mér felst þó í heiti bókarinnar. Annars vegar skrifa ég um merkar formæður sem lítið hefur borið á en ég hef vitað af svo lengi sem ég man. Ég leitast einnig við að komast til botns í þeirri þögn sem hjúpaði lífsreynslu föður míns og föður hans.

Þögn er oft fjölskyldulæg eitthvað sem aldrei er rætt um ættmenna á milli milli en hefur áhrif á okkur einstaklingana.
 

— Annað sem maður tekur eftir þegar maður eldist er að þörfin til að segja frá, miðla til þeirra sem á eftir koma, að aflétta jafnvel þögninni.

 

„Þar hittirðu naglann á höfuðið, það getur verið mikill léttir og á þeim aldri erum við farin að sjá samhengi hlutanna skýrar þegar við lítum tilbaka.

 

Við Valgeir erum búin að fara víða með sýninguna hans Saga Music og í gegnum þær hittum m.a. indverskar konur á ferðalagi. Eftir að hafa hlustað á Valla syngja um fólkið á landnámsöld sagði önnur þeirra hvað það hefði minnt hana upplifun hennar í bernsku. Í þorpinu þar sem hún ólst upp var enginn skóli. Eldra fólkið miðlaði þekkingu til unga fólksins í gegnum söng og sögur. Það sat við þá iðju úti á tröppum eða á torginu, söng og raulað lög og lagstúfa sem innihéldu upplýsingar um sögu, menningu og annað sem tengdist lífsins speki.  

 

Þegar ég er með sögustundir fyrir gestina okkar hér á Eyrarbakka er ég upptekin af því að beina sjónum að því að við búum öll yfir okkar sögum. Það er svo gefandi að finna hvernig fólk opnar augun og tengir mínar sögur við sínar.

 

— Eitt er það sem maður man sjálfur, en fjölskylduminnið er annað, þær minningar sem fjölskyldan býr til í sameiningu, slípar og fágar. Þegar þú fórst að feta slóðina inn í fortíðina, eins og þú orðar það í inngangi bókarinnar, hýtur þú að hafa rekist á það að þessi sameiginlega saga var ekki alltaf nákvæm.

 

„Já allir búa yfir sinni persónulegu upplifun og sýn og minnið því ekki það sama og hinna. Lífshalup föðurömmu minnar Kristrúnar Tómasdóttur hefur markað spor og haft áhrif á alla afkomendurna. Það er mikil gæfa að frændsystkini mín og börn þeirra sem hafa lesið bókina skuli vera sátt og ánægð með skrif mín.

Sagan sem ég vann með, er okkar sameiginlega saga og því eru jákvæð viðbrögð ættingjanna mér afar dýrmæt. Fleiri en einn í fjölskyldunni hefur tekið svo til orða að bókin loki ákveðnum sárum, sárum sem upplifuð voru í gegnum sár foreldra okkar. En líka lokað því stóra sári sem opnaðist um aldamótin þegar bók um afa okkar var skrifuð. Sú bók var skáldsaga en uppistaðan samt byggð á lífi afa og rituð af höfundi utan fjölskyldunnar.

 

Ég gekk ein út á ritvöllinn þegar ég fór af stað með þessa ættarskáldsögu. Mér fannst ég þurfa að fylgja hjarta mínu og var hrædd um að ég myndi ruglast í ríminu færi ég að biðja frændfólk mitt um sínar útgáfur sem margar hverjar gætu stangast á. Ég hugsaði samt til þeirra allan tímann og óttaðist vissulega að bókin myndi ekki falla í kramið hjá þeim. Það er ólýsanleg upplifun að fá falleg viðbrögð frá lesendum og ekki síst frá frændfólkinu sem ég vildi síst af öllu vildi bregðast.

 

Elsti bróðir minn sem er níu árum eldri en ég og hans kona hringdu til mín þegar þau voru búin að lesa bókina til að óska mér til hamingju. Ég hélt niðri í mér andanum, en sleppti honum fljótt þegar ég fékk þessa líka fallegu strokur frá þeim, þau voru yfir sig ánægð bæði með innihald og frásagnarmáta. Það kom þó að því að bróðir minn sagði að það væri eitt sem hefði vafist dálítið fyrir honum... Oh! hugsaði ég auðvitað hlaut ég að hafa gert eitthvað á skjön. Mér var þó strax létt þegar að Kristján sagði það hafa verið þegar hann vissi ekki hvort við myndum hlutina ólíkt eða hvort það þýddi að það sem hann mundi ekki væri hluti af skáldskapnum.

 

— Minnið í okkur er þó ekki geymsla, það er vinnslustöð sem er sífellt að breyta og bæta.

 

Já minnið hefur verið eitt af uppáhaldviðfangsefnum í mínu fagi.

Eftir að ég hætti í starfi við Háskólann setti ég á laggirnar námskeið sem ég nefndi „Auður efri ára“. Þar var farið í gegnum það hvernig við getum tekist á við lífið þegar við eldumst. Ég las mig til um öldrunarsálfræði og ræddi við sérfræðinga um hvað það væri í raun sem gerðist hjá okkur á því nýja aldursskeiði.

 

Eins og flestir vita þá höfum við vinstra heilahvel og hægra heilahvel. Geymslan fer fram í vinstra heilahvelinu, en móttaka og vinnsla fer fram í hægra heilahvelinu. Það sem við tökum við í hægra hvelinu og vinnum úr varðveitist í vinstra hvelinu. Þegar við eldumst drögum við smám saman úr inntöku á nýju efni og þá verður hægra hvelið latt. Þetta er meðal annars ástæðan fyrir því hversu eldra fólk er ötult við að segja frá því liðna. Þær frásagnir eru sannur auður fyrir þá sem leggja við hlustir.

 

Þegar ég er á vettvangi að lesa úr bókinni minni kemur fólk oft að máli við mig lýsir eftirsjá yfir að hafa ekki lagt við hlustir þegar það bauðst. Því miður held ég að það sé að gerast í síauknu mæli í okkar hraða samfélagi þar sem við höfum aðgang að flestu nema reynslu og tilfinningum okkar nánustu. Vonandi verður vakning í þessum efnum því lífið hefur tilhneigningu til að ganga í hring.

 

— Í inngangi bókarinnar segist þú vonast til að geta framkallað skilning og samkennd hjá lesendum með fólkinu sem þú segir frá. Átti það ekki líka við um höfundinn sjálfann?.

 

„Svo sannarlega því á meðan skrifunum stóð opnuðust margar skilningsdyr og ég sá betur samhengi hlutanna. Það má því segja að skrifin og greining á sögunni hafi þannig verið ákveðin lækning.

 

Pabbi minn var algert hörkutól og alger dásemd, en hann var líka mjög svo tilfinninganæmur og lokaður þegar kom að því persónulega. Hann ræddi aldrei bernsku sína út frá sársaukanum sem mætti honum þá aðeins um góðu minningarnar. Eftir að pabbi lést sagði mamma mér að stærsta bernskusár pabba hafi smám saman leitt af sér þugnlyndið sem hann glímdi við síðustu 15 ár ævi sinnar. Hún hafði lofað honum að ræða ekki við neinn um það sem hafði gengið honum svo nærri og því var líf hans fyrir mér ráðgáta. Sú ráðgáta var ein megin ástæðan fyrir því að hafði þörf fyrir að skrifa bókina 2017, sléttum 100 árum eftir fæðingu hans.

 

Lesendur „Það sem dvelur í þögninni“, skynja eflaust sameignleg mynstur sem ég leitast við að draga fram. Hér á ég við áhrifavalda pabba frá á bernskuárum hans og áhrifavalda föður hans þegar hann var ungur drengur. Þá leitast ég við að tengja mynstur Kristrúnanna tveggja, Kristrúnar Tómasdóttur föðurömmu minnar og Kristrúnar Jónsdóttur föðurömmu ömmu hennar. Samfella kynslóðanna og áhrif hennar á þá sem á eftir koma er grunntónninn sem ég leitaðist við slá.

bottom of page