top of page

19. aldar lostætið á hátíðamatseðlinum er hin Svikna skjaldbaka.

Svikin skjaldbaka á sér bráðum 300 ára langa sögu sem hófst í Englandi. Skjaldbökurnar bárust frá nýlendum í Karabíska hafinu og það varð stöðutákn að bjóða gestum krásina því aðföngin voru aðeins á færi burgeisa. Því byrjaði sparneytnara matreiðslufólk að nota auðfengnara kjöt og sérstakar fiskibollur til að fanga keiminn úr sjó og af landi, hinum tveimur lífríkjum skjaldbökunnar.
 

Svikna skjaldbakan varð svo fræg að verða sögupersóna í bók Lewis Carrol um Lísu í Undralandi. Þar var svikna skjaldbakan uppspretta orðaleikja á borð við þann frá hjartadrottningunni illræmdu að hún væri hráefnið í samnefnda súpu.
 

Líklegt er að Svikna skjaldbakan hafi fyrst verið elduð í íslenskum potti í „Húsinu“ á Eyrarbakka. Silvía Thorgímsen faktorsfrú og dætur hennar dvöldu langdvölum í Danmörku og tileinkuðu sér matargerðarlist danskra sem var í hávegum höfð á rausnarheimilnu í „Húsinu“.

 

Ásta Júlía dóttir hennar varð síðar fyrst íslenskra þegna til að fá leyfi til að kenna matargerð og Svikna skjaldbakan var hluti af vopnabúri hennar. Uppskrift Ástu Júlíu hefur varðveist í uppskriftabókum lærimeyja hennar og er grunnuppskrift fylgt eftir föngum.
 

Svikna skjaldbakan sem er á borð borin á gömlu jólunum í Rauða húsinu er því byggð á þekktum gömlum uppskiftum. Síðari tíma smekk og bragðskyni er mætt, án þess þó að upprunalegt bragð og seiðmagn hverfi. 

Jólasögur og tónlist í Eyrarbakkakirkju eru upptaktur að hátíðarmáltíð í Rauða Húsinu. Jólamatseðillinn tekur mið af íslenskum jólasiðum á 20. öldinni þegar jólalambið og hangkjötið voru þungamiðjan.

 

Þótt gamli tíminn hafi ekki einkennst af bauna- og grænmetissteikum, þá verða þær samt hluti af hátíðarmatseðlinum á Eyrarbakka.

 

 

Dönsku eplakökurnar sem fóru fyrst á borð Íslendinga í “ Húsinu” á Eyrarbakka, eggja- og rjómabúðingar, möndlugrautur með vinningum, súkkulaði með þeyttum rjóma, randalínur og smákökur - það eru “Gömlu Jólin” okkar á Eyrarbakka.

Svikin skjaldbaka

bakkastofa - eyrargata 32, 820 Eyrarbakki / bakkastofa@eyrarbakki.is / tel. 821 2428 - 561 2429

bottom of page