top of page

Sölusýning - Málverk og tónleikar.

Fyrsta verkið sem við kynnum til sögunnar er „Poplag í G dúr “ (164,5 X 121,5) sem þarfnast vart skýringar við. Áhugasamir beri sig eftir björginni í gegnum skilaboðskjóðu Bakkastofu eða Valgeirs. – Einnig með t-pósti bakkastofa@eyrarbakki.is

Segja má að Jón Vilhjálmur Stefánsson náfrændi Ástu Kristrúnar sé einskonar hirðmálari Bakkastofu. Tónlistarsalurinn á jarðhæð Gamla Kaupfélagshússins, þar sem Bakkastofa hefur aðsetur, er prýddur litríkum verkum eftir Jón Vilhjálm. Það fer vel á því að tengja tónlist Valgeirs við verk JVS þar sem mörg þeirra eru máluð undir áhrifum frá tónlist Bakkastofubónda.

Frá því við fluttum á Eyrarbakka hefur staðið til að halda málverkasýningu með verkum Jóns Vilhjálms, enda fæddist langamma hans Ásta Júlía í „Húsinu“, en hún var jafnframt langamma Ástu Kristrúnar.

Jón Vilhjálmur ólst upp í Berkeley við San Fransisco flóann og lauk námi frá listaakademíu háskólans sem kenndur er við Berkeley. Hann hefur haldið margar sýningar og málar sem aldrei fyrr.

 

Valgeir sendir að staðaldri tónlist vestur til Kaliforníu í Sacramentosveitina þar sem Jón Vilhjálmur býr og tónlistin blæs honum anda í brjóst. Myndirnar sem margar hverjar eru sólríkar leita til baka norður á bóginn og hingað á Eyrarbakka, þangað sem rætur listamannsins liggja.

Við sjáum ekki fram á að halda sýningu á þessu vori eins og fyrirhugað var og ætlum því að hefja leik hér á Facebók.
Hér er um sölusýningu að ræða og hvert verk sem selst er kvatt með vænum einkastofutónleikum í tónleikasal Bakkastofu.

bottom of page